Hausta tekur...
Nú er sumri tekið að halla, laufin farin að gulna og litlu börnin halda í skólana á morgun- ég líka. Skemmtilegir dagar framundan; forfallakennsla í Kársnesskóla- gamla skólanum mínum. Ekki laust við að það færi um mig einkennileg tilfinning sl. fimmtudag er ég sat kennarafund með mínum gömlu kennurum úr barnaskóla- en nú sem þeirra kollegi. Jú, það er deginum ljósara að ég verð ekki yngri úr þessu... sérstaklega ekki í ljósi þeirrar staðreyndar að ég á afmæli á morgun! Smá stelpuboð var haldið í tilefni þessa áfanga sl. föstudag og var það vel. Vil ég þakka þeim þokkadísum innlitið (það voru teknar nokkrar myndir -þær koma inn með tíð og tíma). Að þessari teiti lokinni var nú reyndar haldið í Kaupstaðinn þar sem dansaðir voru dansar og ölið kneyfað, en sökum þess að ég hafði lofað mér í sjálfboðavinnu við tímatöku í Reykjavíkur Maraþoninu var farið heim á siðsamlegum tíma... hver skyldi millitíminn hafa verið? :)
K8
0 Comments:
Post a Comment
<< Home