Saturday, July 29, 2006

Góður dagur

Eyddi deginum með sjálfri mér. Ekki átt jafngóðan dag í laaangan tíma. Gerði allt sem bara MIG langaði til að gera. Mæli með því að eyða degi endrum og sinnum einn með sjálfum sér og gera allt sem bara mann sjálfan langar að gera.

Fór í Þjóðmenningarhúsið, Listasafn Íslands og út í Gróttu að skoða listasýninguna þar sem heitir Eiland. Virkilega gaman að fara þarna út í Gróttu (er samt bara opið þegar það er fjara). Fer nokkuð oft út í Gróttu en fór í fyrsta skipti upp í vitann og út á þakið á honum. Mögnuð tilfinning. Ekki spillti fyrir að einn af bestu vinum mínum- Snæfellsjökull- skartaði sínu fegursta. Keypti mér líka nýjasta blaðið af National Geographic. Sumsé; virkilega góður og endurnærandi dagur.

K8

Friday, July 28, 2006

Þetta er betra svona ...

... og verður ekki breytt aftur.

Punktur hérna ---> .

K8

Tuesday, July 25, 2006

Hugarflug mávans

Hugurinn hefur hugsað mikið að undanförnu. Allt og ekkert. Ekkert og allt. Tími- tímaleysi- endaleysi-andaleysi- andlaus- laus við endur... blessaður mávurinn. Arrg. Kannski er þetta honum að kenna... þ.e. eirðarleysið. Mávurinn böggar Katrínu jafnmikið og Gísla Martein. Nei, annars get ég ekki sagt það. Hefur reyndar alltaf þótt mávurinn frekar snyrtilegur og stílhreinn fugl. Hann hefur svona "beitta" eða "skarpa" ásjónu. Og er hreinn. Aldrei skítugur. Ég hugsa að ég fari allavega ekki að beita mér fyrir útrýmingu hans í bráð. Er mávur með f-i eða v-i var ein pælingin..

Spurningakönnun var í Blaðinu um daginn og var hún á þá leið hvort mávurinn hefði verið að angra landann. Flestir virðast lifa í sátt og samlyndi við mávann (með f-i eða v-i). Ég velktist mikið í vafa um þetta með f-ið eða v-ið... það stakk eitthvað í augun á mér að þetta skyldi skrifað með v-i. Mér líkar ágætlega við mása blessaðan eins og fram hefur komið. En ég var ekki með orðabók við höndina svo ég gat ekki flett þessu upp. Ég var heldur ekki með tölvuna svo ég gat ekki googlað þetta- blessað googlið. Endalaust sem maður getur googlað. En nú er ég bæði með orðabók og google. Geri ég nú hlé líkt og títt er gert í sjónvarpsdagskránni til að fólk geti undirbúið sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið með Glitni.

Mávur með v-i. Þá veit ég það framvegis. Tók mig u.þ.b. mínútu. Gæti komið að notum einhvern tímann, eins og þeir segja þá er þekking víst alltaf til góðs.

Eirð í bili.

K8

Friday, July 21, 2006

What happenend Kal-El?

Ég fer ekki oft í bíó. Ekki lengur. Ég fór rosalega oft í bíó einu sinni. Sá hreinlega allt sem kom á hvíta tjaldið. Nú fer ég sjaldan og reyni þá að vanda valið eftir fremsta megni. Mér brást heldur betur bogalistin nú um daginn þegar ég asnaðist til að láta plata mig á Súperman. Ég ætlaði fyrst ekki að fara, dró seiminn og vildi frekar fara á kaffihús en lét þó til leiðast á endanum. Það er nefnilega orðin regla fremur en undantekning að mönnum mistekst allhrapalega reyni þeir að endurgera svona, að því er segja má "sögulegar", bíómyndir.

Ég hef verið gallharður Súpermanaðdáandi síðan ég man eftir mér. Tók það einstaklega nærri mér þegar Christopher lamaðist og ég gerði mér grein fyrir því þegar kappinn féll af hestbaki að ég hafði alltaf haldið að ekkert gæti skaðað hann ... well, nema að sjálfsögðu krypton.

Ég hef ekki séð jafnvonda mynd í mjög langan tíma. Því miður. Er ég sannfærð um að Christopher Reeve myndi snúa sér marga hringi í gröf sinni sæi hann myndina- þ.e. gæti hann það. Meira að segja Kevin Spacey- sem ég hef verið laumulega skotin í í mörg ár- olli mér vonbrigðum. Hvað var svo málið með nýju hönnunina á búningnum? Bjánahrollur.

K8

Monday, July 17, 2006

Kennslukonan K8

Jæja....

Þar sem ég skilaði inn ritgerðinni í maí og kláraði blessaðan Kennaraháskólann þá hélt ég síðbúinn fögnuð nú á laugardag. Verð að segja að fögnuðurinn lukkaðist svona líka vel. Vil koma á framfæri þakklæti til ykkar sem komu og heiðruðu mig með nærveru ykkar og gáfuð mér svona líka fallegar gjafir. Þeir sem gáfu mér ekki gjafir fá samt líka þakkir ;) ...

Ég smellti nú af einhverjum myndum og má sjá þær undir hlekknum "mínar sálir".

Það týndi einhver hring heima hjá mér (silfurlitaður með glitrandi steinum) og getur sá hinn sami vitjað hans til mín - Ekki nema að það hafi verið svona leynigjöf sem ég átti að finna við hliðina á vasknum.. spurning... Ég væri alveg til í að eiga þennan hring!

Allavega...
Knús og kossar aftur-

K8

Wednesday, July 12, 2006

Öfgar

Sótti 536 myndir úr framköllun- það kostaði mig um 15.000 kr. Sporðrenndi tveimur 150 gr. hammörum með slatta af meðlæti- það veitti mér góða magafylli.

Geri ráð fyrir því að vera södd þangað til á morgun.

Best að fara að setja 536 myndir inn í myndaalbúm.

K8

Monday, July 10, 2006

Salsa á skilorði

Újé.... :)

K8

Friday, July 07, 2006

"Tíminn og sumarið" örljóð eftir K8

Tíminn og sumarið

Sumarið er tíminn-
tíminn er núna og
tíminn er afstæður.

Og sumarið er eins og sekúnda
-fljótt að líða.

En skemmtilegur músarbendill lætur tímann bíða...

K8

Í fagmáli kennara tíðkast að tala um kveikjur. Kveikja er- eins og gefur að skilja- notuð til að kveikja áhuga á einhverju og vekja forvitni nemenda um leið. Svona eins konar aðleiðsla að viðfangsefninu. Ég var í mínu reglulega ljóðavafri um Netheima þegar ég ákvað að googla ljóðið "Tíminn og vatnið" e. Stein Steinarr. Þessi síða kom upp---->

http://starfsfolk.khi.is/salvor/draumar/css/klukka.htm

Ég varð svo hugfangin af músarbendlinum að ég varð að deila þessu með ykkur Netverjum. Þar að auki er "Tíminn og vatnið" skyldulesning fyrir sérhvern íslenskan Netverja. (Ég veit af stafs.villum inni á síðunni þarna en come on þetta er bara aðeins of sniðugur músarbendill). Sælir eru einfaldir.

K8

Wednesday, July 05, 2006

Nýjar umbúðir

Kexið í kálinu mun halda áfram að vera jafnstökkt, ferskt og brakandi- jafnvel enn meira brakandi nú en áður- með tilkomu nýrra umbúða!

Haldið áfram að njóta.

K8

Tuesday, July 04, 2006

Fáránlega góð helgi

Hallgeirsey 2006.

Mögnuð útihátíð.

K8