Sunday, March 15, 2009

Með morgunkaffinu...

Sunnudagur í Salzburg. Kertaljós og Celine Dion- ég veit það ekki, en það er eitthvað sem knýr mig til að hlusta á hana þessa dagana. Eins og það er eitthvað sem knýr mig til að skrifa meira- ég finn þörf og löngun til þess. Það er dýrmæt tilfinning- löngun. Maður áttar sig á því þegar hún er ekki til staðar. Eins með innblásturinn, hann er kærkominn. En það þarf líka að viðhalda honum, vökva hann eins og blóm - annars deyr hann. Vá- kannski ekki alveg svona dramatískt en samt.

Það er svo fyndið með þessar langanir sem eru inní manni, - það er enginn sem stöðvar mann nema manns eiginn ótti eða framtaksleysi... þessi "ég nenni því ekki" tilfinning- en kannski er hún í grunninn líka bara ótti við að leggja eitthvað á sig.

Það er eiginlega rigning úti, - allavega grátt. En það er allt í lagi- mér finnst svona veður fínt, það er ennþá í takti við skapið í mér ... en vorið er í loftinu, líka innan í mér. Ég ætla í göngutúr í dag. Þó svo að dagurinn sé ekki brakandi- hann brakar bara á annan hátt í dag.

Það er gott að vera farin að lesa aftur eins og þegar ég var unglingur, ég ét í mig hverja bókina á fætur annarri. Það gefur mér líka innblástur og vissu um að "þegar öllu er á botninn hvolft þá endar allt einhvern veginn" H.L. Það er svo fyndið hvernig persónur í bókum verða oft vinir manns og maður fer að lesa hægar af því að maður vill þekkja persónurnar lengur og vita meira.
Og að geta brosað og hlegið upphátt vegna þess sem maður les- það er þannig sem bókmenntir eru svo gjöfular. Við erum öll eitthvað svo mannleg. Maður lærir að þekkja sjálfan sig í mismunandi aðstæðum og maður öðlast nýja reynslu,- já þetta heillar mig ótrúlega mikið.

Mig langar að vera rithöfundur. Ég hef hugsað þetta í fjöldamörg ár, alveg síðan ég var krakki - og sagt nokkrum vel völdum einstaklingum frá þessari löngun- en einhvern veginn ekki viljað segja hana upphátt. En nú segi ég það bara- mig langar að verða rithöfundur. Þá þarf ég auðvitað að byrja að skrifa- og hætta að stroka út orð og setningar. Til þess að takast eitthvað þarf að mistakast. Til þess að skapa eitthvað þarftu að prófa allt- bæði gott og vont og svo sjá hvað þú vilt... Ég er allavega ekki enn búin að gefast upp á þessu bloggi eða skipta um slóð til að byrja upp á nýtt og er það vel. Þannig mun það vera.

En svo er líka svo fallegt að maður þarf ekki bara að verða eða vera eitthvað eitt- maður þarf ekki að útiloka annað til að velja eitt.

Það er gott að breytast.

K8

0 Comments:

Post a Comment

<< Home