Friday, September 23, 2005

Þakklæti

.. Var að koma heim úr skólanum, en ég bý í landi þar sem mér gefst kostur á að mennta mig. Ég keyrði heim, settist niður og fékk mér að borða. Ég bý semsagt á heimili þar sem er til er matur. Ég tók upp Morgunblaðið og byrjaði að fletta því í gegn... en í landinu sem ég bý í er lýðræðislegt stjórnarfar og fjölmiðlun frjáls (sleppum hér bláum og rauðum kreddum). Á forsíðu blaðsins segir að fjöldi manns þurfi að flýja heimili sín sökum ótta við að fellybylur muni leggja þar allt í rúst... Í landinu sem ég bý í er lítil sem engin hætta á fellibyljum (þó svo að leifar sumra geri einstaka sinnum vart við sig.) Ég les áfram. Einhverjir að nöldra um skipulag Vatnsmýrarinnar og aðrir sem undra sig á umhverfisskipulagi þar sem væntanlegt tónlistarhús mun rísa.... mikilvægir hlutir að mati sumra. Ég les áfram, fletti að vanda yfir allar íþróttasíðurnar... þær eru ekki að mínu skapi. Mætti nýta þær í að fræða um hluti sem virkilega skipta máli. Ég hef allt frá barnsbeini haft það fyrir reglu að lesa minningargreinar fólks og er sá lestur í dag kveikjan að þessari ígrundun minni. Ung stúlka, tveimur árum yngri en ég, var bráðkvödd í Kaupmannahöfn. Par á besta aldri lést í sjóslysi á Viðeyjarsundi. Þetta gætu hafa verið þú og ég. Einhvern daginn verða þetta þú og ég eða einhverjir sem að standa okkur nærri. Það er óumflýjanlegt. Hvaða máli skiptir Vatnsmýrin ef þú misstir besta vin/vinkonu/fjölskyldumeðlin?? Engu. Það er ekki sjálfgefið að búa í landi þar sem nóg er af öllu, lýðræðislegt stjórnarfar ríkir, náttúruhamfarir sem útrýma þúsundum dynja ekki yfir, og manni gefst kostur á að mennta sig. Þetta eru forréttindi. Minnum hvert annað á það reglulega og njótum þeirra samverustunda sem við eigum með þeim sem eru okkur kærir... það eru þeir hlutir sem mann ber skylda að vera þakklátur fyrir.

K8

0 Comments:

Post a Comment

<< Home