Músa-jól
Og jólin komu til byggða. Hljóðlega og látlaust svifu þau niður af himnum og lögðust blíðlega yfir ból, jafnvel þó svo að engar hefðu smákökurnar verið bakaðar né seríurnar verið hengdar upp í lítinn glugga. Kannski næstu jól, hver veit. En jólin svifu inn í lítið hjarta, sem tókst að þessu sinni að stilla á RÚV í tæka tíð, svo klukknahljómurinn flutti með sér eirð og angurværð um þreyttan huga og bísperrt eyru og engin féllu tár niður vanga- heldur fæddist örlítið bros, sem meira að segja náði upp til augna. Litla jólamúsin hafði náð jólunum. Yfir borðhaldi leiddi hún hugann að ættingjum og ástvinum nær og fjær, sendi þeim hlýja strauma og hugsanir. Hún óskaði öllum gleðilegra jóla, og sérstaklega fólkinu á tjaldstæðinu í Laugardal og músunum þeirra. Jólamúsin tendraði jólaljós og horfði á fallegt jólatréð uppljómað og fallega skreytt, greniangan lagði af því. Hún huxaði mikið. Með foreldrum sínum átti litla jólamúsin yndislega stund og fékk hún fallegar gjafir, bæði kerti og spil. Litla músin lagðist svo í rúmið. Hún knúsaði Ísbjörninn sinn og breiddi ofan á þau sængina svo þeim yrði ekki kalt þegar Veturkonungur vefði bæinn hvítum örmum sínum. Jólamúsin og Ísbjörninn voru ekki munaðarlaus á jólunum, þau áttu hvort annað að.
K8
K8