Wednesday, May 17, 2006

Hæfileikar

Hvar værum við stödd án fólks sem býr yfir hæfileikum? Hvergi. Það þarf hæfileika til að framkvæma alla hluti sama hversu lítilvægir og auðveldir sumum kunni að finnast þeir. Það er afstætt hvað fólk telur vera erfitt eða auðvelt. Hæfileikar þurfa ekki endilega að vera meðfæddir en samt sem áður liggja sumir hlutir betur fyrir manni heldur en aðrir. Mér gengur t.d. mun betur að dansa heldur en að spila fótbolta. En ef ég myndi æfa mig í fótbolta dag og nótt þá er ég sannfærð um að ég yrði góð í fótbolta- ég efast reyndar ekki um það í eina sekúndu. Jónas er t.d. mjög klár í að búa til lögin sín, ólöf gerir fallegar myndir, Pála er mjög klár á hestbaki, mér finnst gaman að dansa og Tómas er klár í að fljúga og að tengja saman snúrur. Öll eigum það sameiginlegt að hafa æft okkur og okkur finnst þessir hlutir með því skemmtilegra sem við gerum. Ég ætla ekki að segja frasann hérna um að æfingin skapi meistarann af því mér finnst hann aðeins of corny. En corny getur verið gott stundum, fer eftir samhengi.

Svo er til fólk sem segir "ég hef enga hæfileika á neinu sviði"- ég þoli ekki þá setningu af því það er bara spurning um að leita inn á við, leita í það sem manni finnst skemmtilegt og einbeita sér að því. Þessi fyrrnefndi frasi "ég hef enga...." jafngildir því að segja "mér finnst allt leiðinlegt í lífinu". Reyndar koma kaflar hjá flestum okkar þar sem okkur finnst allt leiðinlegt og allt vera svart, en það eru tímabil... en ekki skal gleyma því að gríðarleg listsköpun hefur átt sér stað einmitt þegar fólk er annað hvort mjög langt niðri eða hátt uppi, hvernig sem því er nú hagað hjá hverjum og einum.

Einu sinni sagði ég "Ég kann ekki að teikna" og mér fannst það leiðinlegt, af því mér fannst það mjög skemmtilegt. Það virtist bara ekki henta myndlistarkennaranum hvernig ég teiknði ávexti í skál og einhver þríhyrningaform. En núna er mér alveg sama, mér finnst gaman að teikna og klessulita og ég geri það. Mér er eiginlega skítsama um hvort öðrum finnist það sem ég teikna vera ljótt, mér finnst það flott og hengi það upp á vegg. Þetta er mín túlkun.

Með hæfileikum okkar til að skapa fallega tónlist, myndlist, danslist, byggingarlist, ritlist, kvikmyndalist, matargerðarlist, sönglist o.fl. þá auðgum umhverfi okkar og samtímis því líf okkar. Það er gefandi að skapa eitthvað, hafa áþreyfanlegan árangur í höndunum- afrakstur erfiðis og útsjónarsemi. Oft kostar leiðin að takmarkinu blóð, svita og tár að komast á leiðarenda og ljúka því markmiði sem maður setti sér. En það er ólýsanleg tilfinning sem fylgir því að sjá sköpunarverk sitt. Erfiðið er vel þess virði.

Sá boðskapur sem ég vil koma á framfæri hérna er að fólk líti inn á við, finni hver það er og hvað því finnst gaman að gera. Það er gott að standa upp frá einhverju og hugsa "Þetta gerði ég. Þetta er mitt afrek". Og það er líka góð tilhugsun að hafa skilið eitthvað eftir sig þegar við öll verðum aftur að moldu.

K8

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

og sum okkar geta meira að segja lagt saman bilnúmer á 0,2 sec sléttum! (en þá er það víst upptalið hvað mig varðar :(

9:42 PM  

Post a Comment

<< Home