Thursday, August 31, 2006

Hugvekja

Diskurinn "In Memoriam" spilar undir...

Oft hef ég setið með orð í huganum fyrir framan þessa tölvu, þessa blessuðu óstabílu tölvu frá Nýherja, og hugsað með sjálfri mér hvort ég eigi nokkuð að vera að varpa hinum og þessum hugsunum fram í Netheimum. Er nefnilega oft með skjaldböku-syndromið á háu stigi og þá langar mig bara til að hoppa inn í skelina og verja mig fyrir alheiminum.

Í kjölfar fráfalls ungs manns sem átti allt lífið framundan hef ég hugsað margt og langar að deila brotabroti af því með ykkur hér. Ég hef hugsað og hugsað um lífið og tilveruna og tilganginn og allt saman. Kemst aldrei að neinni niðurstöðu, kemst jú að þeirri niðurstöðu að því meira sem ég hugsa- því minna veit ég.

Ég hef í gegnum ævina mikið spáð í guð og trúarbrögð og eilíft líf. Kemst ekki að neinni niðurstöðu- ég er og hef alltaf verið þannig að það þarf yfirleitt að "sanna" hlutina fyrir mér, koma með áþreifanleg sönnunargögn fyrir hlutunum og þá sannfærist ég. Svolítið erfitt í þessum efnum, þar sem í orðinu trú felst einmitt þetta "að trúa" en ekki "að færa rök fyrir".

Máltakssjúklingurinn hefur verið fjarri góðu gamni um nokkurn tíma en kom þó upp í mér um daginn. Ég fór að hugsa um orðasambandið "eilíft líf". Ei-líft líf. Líf sem ei er lifandi... þetta orðsamband truflar mig eitthvað núna. Skil ekki hvers vegna ég hef ekki komið augu á þetta fyrr. Eilíf orka er annað - mun auðveldara fyrir mig að meðtaka það. En samt gat ég réttlætt orðasambandið með því að nota ljósmyndir og aðrar myndir, ég er haldin mikilli þráhyggju varðandi það að skoða myndir. Á þann háttinn má segja að hlutirnir í tilverunni öðlist eilíft líf, þegar ég skoða myndir af liðnum atburðum og fólki sem er farið - þá eru taugaboð í gangi í heilanum á mér og ég er lifandi... mjög góð rökfærsla fyrir "eilífu lífi" verð ég að segja.

Trú, tilgangur, eilíft líf... Ég kemst ekki að neinni niðurstöðu með þetta núna. Kannski er þetta eins og erfiða stærðfræðidæmið í menntó þar sem maður þurfti að bara að leggja frá sér stærðfræðibókina í einhvern tíma og hvíla höfuðið, svo gat maður fundið lausnina mjög auðveldlega næst þegar maður kíkti á það. Kannski poppar svarið inn í hausinn á mér einhverja nóttina þegar ég ligg andvaka og ég sendi svarið til einhvers í sms-i ;)

Að öllu gamni slepptu þá er mín skoðun sú að hver og einn þurfi að finna sér sinn tilgang hérna á þessari jörðu, þessari jörðu þar sem lífið okkar er svo stutt og líður svo hratt framhjá að við gerum okkur ekki grein fyrir því. Það er ekki tími til þess að velta sér upp úr því hvort maður eigi að gera hlutina eða ekki, maður verður bara að gera þá því augnablikið kemur ekki aftur. Lífið er líka of stutt til að hika- til að hætta við - og sjá eftir. Þú átt bara að ýta sjálfum þér yfir þín mörk eins og þú þekkir þau, taka áhættur og stökkva yfir pollinn. Hann er stundum stór og það skvettist helling af drullu á þig, fötin verða gegnblaut og þú rispast jafnvel. En þá ferðu bara í sturtu, skiptir um föt og setur plástur á sárið. Ef þú prófar ekki að stökkva yfir pollinn, þá veistu nefnilega ekki hvort þú gætir hreinlega svifið yfir hann, fengið meðvind og lent bara mjög vel lengst hinum megin við hann. Og sú tilfinning- ..... það er góð tilfinning og vel áhættunnar virði.

Það er líka ofsalega mikilvægt að við stoppum, förum aðeins út fyrir sjálf okkur og horfum á lífið okkar frá hlið og njótum þess sem við erum að gera. Hvað svosum það kann að vera, skemmtilegt eða leiðinlegt. Hvort sem það er erfitt próf framundan, partý, þynnka á sunnudegi, vandræðaleg þögn, umferðarteppa, göngutúr í góðu veðri, erfiðar áskoranir og ákvarðanatökur ..... bara rétt aðeins að staldra við og njóta þess að vera staddur í aðstæðunum, vera staddur í hversdagsleikanum, njóta þess að vera staddur í lífinu hér og nú. Vera í núinu. Núið og lífið; það kemur ekki aftur í þeirri mynd sem við þekkjum það. Ég gleymi þessu stundum- þó svo að minnið sé nú ansi gott.

Í lífinu hittum við fyrir alls konar fólk, fólk sem okkar líkar misvel við. Við erum mismunandi samansett og höfum mismunandi skapgerðir og húmor. Sumir eru skemmtilegri en aðrir og okkur finnst við eiga samleið með, aðrir eiga ekki jafnvel við okkur. Stundum fjarar vinátta út einhverra hluta vegna og sum vináttusambönd endast ævilangt. Það er mikilvægt að rækta góð vinasambönd við fólk og reyna að láta sér lynda við náungann.

Ég get verið mjög skapvond og frek en ég hef í gegnum lífið haft þá reglu að fara aldrei að sofa í ósætti við mína nánustu, það er góð lífsregla sem ég mæli með að fólk reyni að lifa eftir. Lífið er bara alltof stutt til að vera í ósætti og ég myndi ekki vilja skilja við neinn í hinsta sinn í ósætti. Ég yrði þá að vita að ég hefði a.m.k reynt að sættast- reynt að leysa málin og beðist afsökunar. Ef ég hef gert eitthvað á hlut einhvers þarna úti og hef ekki nú þegar beðið sá hinn sama afsökunar þá hef ég bara eitt að segja; fyrirgefðu. En þó ræður enginn yfir öðrum einstaklingum og verður því hver og einn að gera það upp við hvort hann veiti fyrirgefningu. Og að fyrirgefa- það er eitthvað sem þarf að gera af heilum hug alveg innst inn að hjartarótum. Það er eiginlega betra að fyrirgefa ekki heldur en að gera það ekki í hjartanu sínu.

Ég er sú sem ég er vegna allra þeirra hluta sem á daga mína hafa drifið, ásamt erfðaþáttum og mörgu fleiru. Fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni hefur líka haft stór áhrif á mig. Margt af þessu fólki umgengst ég ekki í dag en það hefur samt haft heilmikil áhrif á mig og kennt mér mikið. Kennt mér um lífið og tilveruna, kennt mér um samskipti, kennt mér um hina og þessa hluti- sumt staðreyndir um heima og geima. En flestallt það fólk sem ég hef kynnst og átt samtal við, hvort sem það hefur verið um stutt skeið eða lengri tíma, á það sameiginlegt að hafa kennt mér eitt af mikilvægari þáttum lífsins; að líta í eigin barm. Fyrir það langar mig að koma á framfæri þakklæti til ykkar allra; takk.

K8

Saturday, August 26, 2006

Kertaljós


K8

Saturday, August 12, 2006

ArtFart

Skellið ykkur!

Ég, Ásgeir og Vignir gerðum það og skemmtum okkur mjög vel. Símreikningurinn gæti þó hækkað. Gangi þér vel Ásgeir.

K8

Wednesday, August 09, 2006

1734 km

Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja það er svo margt sem hrærist innra með mér. Ég er búin að upplifa svo ótrúlega mikla fegurð, náttúrufegurð, en á sama tíma svo mikil náttúruspjöll að það má segja að ég sé einn tilfinningalegur hrærigrautur að innan. Fjöll, dalir, firðir, hraun, virkjanir, mosi, sól, rigning, sólsetur, auðn, stíflur, hálendið, jarðvarmi, fjalladrottningar, skriðjöklar, sandar, ár, fljót, lækjarsprænur, fossar, eyjar, hamrar, drangar, þoka, heiðríkja- allt þetta á svona skömmum tíma; einni helgi. Kannski ekki að undra að ég viti ekki alveg hvar ég ætti að byrja en þó byrjaði þetta allt saman við eldhúsborðið hérna heima í hádeginu á laugardag. “Mamma, eigum við ekki bara að skella okkur í útilegu?” “Jú- drífum okkur” og þannig hófst hringferð okkar mæðgnanna sem við fórum núna um helgina.

Mér hefur verið mikið umhugað um virkjanir og stóriðjuframkvæmdir og áhrif þeirra ásamt öðrum hlutum að sjálfsögðu, á náttúruna í kringum mig. Megintilgangurinn með ferðinni var því að svala þörf minni fyrir að koma að Kárahnjúkum og skoða þetta landsvæði sem mun senn fara undir vatn þegar fyllt verður upp í Hálslón. Einnig var stór tilgangur ferðarinnar að skoða alla skriðjöklana úr Vatnajökli sem eru að hopa vegna gróðurhúsaáhrifa og hækkandi hita á jörðinni. Verður að segjast að ef til eru veðurguðir þá voru þeir okkur svo sannarlega hliðhollir því að skyggnið var það gott að við sáum í Hvannadalshnjúk alla leiðina frá Höfn í Hornafirði.




Við ákváðum að fara norðurleiðina og er ekki hægt að segja að allra besta veðrið hafi fylgt okkur á laugardeginum, keyrðum mestan partinn í þoku og súld- allavega lengst norður yfir Öxnadalsheiði- en þá fór loksins að sjást til sólar. Ég hafði hlakkað mikið til að sjá Hraundranga- en útlitið var ekki bjart, í bókstaflegri merkingu, að þeir myndu sýna sig. Í öllu sínu veldi gerðu þeir það þó, sveipaðir dulúðlegri þoku, sem svo rofaði til akkúrat þegar við keyrðum framhjá þeim.

Þar sem veðrið var ekki með besta móti á laugardeginum þá ákvað ég að í stað þess að vera alltaf að stoppa bílinn til þess að taka myndir þá myndum við bara gera nokkurs konar heimildarmynd. Tókum bara fullt upp á video og er alveg meinfyndið að sjá þetta núna aftur- verður gaman að skoða þetta í ellinni og segja e.t.v. “jæja hérna eru langamma (ég) og langalangamma (mamma) uppi hjá stíflunni við Kárahnjúka – þetti svæði er undir vatni núna” -sem verður auðvitað leiðinlegi parturinn að segja frá. There’s always a downside. En samt- gaman að þessu. Þetta varð auðvitað þess valdandi að síðari hluta ferðarinnar þurfti ég að kaupa einnota myndavélar vegna þess að ég tímdi engan veginn að eyða þessum myndskeiðum og minniskortið fylltist.

...Og norður norður norður við keyrðum, komum að Mývatni- því stórbrotna svæði. Keyrðum í gegnum heilu stormsveipana af mýi. Hverfjall- Dimmuborgir- Höfði... já, það er ástæða fyrir því að þetta er vinsæll ferðamannastaður. Fegurðin er svo stórfengleg. Fór reyndar ekki upp á Hverfjall í þetta skiptið, been there-done that... and will do again again many many times in the future :)

Svo voru það Möðrudalsöræfin. Þetta landslag á svo innilega við mig. Steingrái liturinn sem þarna var í bland við himininn, bleiku skýin og fjólubláan himininn. Þarna lét Herðubreið sjá sig. Hvílík stund- hvílíkur kyngimagnaður kraftur. Orðum ofaukið? Nei- málið er að þarna er landslagið svo hrikalegt, svo fallegt, að aldrei munu duga næg orð til að lýsa þessu. Þeir sem ekki hafa komið þarna vita ekki hvers þeir fara á mis við. Að keyra svo yfir brúna við Jökulsá á Fjöllum og horfa ofan í gljúfrið- þvílíki krafturinn. Ekki virkja þeir orkuna í þjóðgarðinum, efast samt ekki um að þá langi til þess. Þarna náði ég nokkrum myndum af einu magnaðsta sólarlagi sem ég hef séð.



Eftir að hafa keyrt meðfram Jökulsá á Brú (Jöklu) og séð Dýrfjöll hverfa í sólarlaginu tjölduðum við í kolniðamyrkri í Þurshöfðavík í Hallormsstaðaskógi. Ég hafði ekki tjaldað tjaldinu fyrr og verð því að hreykja sjálfri mér óspart fyrir að hafa gert það á mettíma með hana móður mína yfir mér, sjáandi til þess að öngvir hælar týndust með tilheyrandi stressi. Mæður eru yndislegar - við þekkjum það öll - en eftir níu tíma akstur vildi ég bara tjalda tjaldinu í friði- ég elska þig mamma :)

Ég mæli með tjaldstæðinu í Þurshöfðavík, öll aðstaða var þar til fyrirmyndar og ekki spillti fyrir að fá dásamleg egg og bacon í morgunmat og nescafé gull. Við kunnum að hafa það náðugt í útilegum, ég og móðir mín. Sunnudagurinn var runninn upp og var ætlunin að skoða stífluna að Kárahnjúkum, sem við og gerðum, ásamt því að skoða Skriðuklaustur, Reyðarfjörð og Stöðvarfjörð.


Þegar fólk talar um að það skipti engu máli þótt vatn muni þarna flæða yfir allt landsvæðið því það komi enginn þangað hvort eð er, nema kannski Ómar Ragnarsson, þá verð ég hvumsa. Reyndar verð ég bara alveg brjálæðislega reið inn í mér. Það er eins og að fólk skilji ekki að einmitt þessi auðn, þetta ósnortna landsvæði og náttúra, sé svo merkileg í sér. Ísland er ósnortið landsvæði. Nú ætla ég ekki að fara að tala um lífríkið og allt það því það er að sjálfsögðu heill kapítuli útaf fyrir sig. Málið er að með því að reisa svona stíflu, líkt og Kárahnjúkastíflu, og fylla upp í lón- Hálslón- þá tekur svo stuttan tíma þar til landsvæðið fyllist af aur, kannski mannsaldur og varla það, og það eru óafturkallanleg náttúruspjöll. Svona er það nú með vatnsfallsvirkjanirnar. Öðru máli gegnir með jarðvarmavirkjanir- rörin er nú hægt að fjarlæga síðar meir svo þær valda þannig séð ekki skemmdum þótt þær séu ekki neitt sérstaklega fallegar.


Svo fær maður það líka á tilfinninguna að það sé fólk sem hefur aldrei gefið sér tíma í að ferðast um landið sem er að taka þessar stóru ákvarðanir. Skrifar bara nafnið sitt hér og þar á blað og þá er búið að ákveða að setja álver hingað og virkjun þangað. Ég hef ekki séð jafnljóta háspennustaura og lágu frá Kárahnjúkum og alla leið út í Reyðarfjörð. Það er búið að skemma Reyðarfjörð og ásýnd hans með þessum líka ljótu kerskálum. Mér hefur sjaldan liðið jafnilla. Leið eins og ég væri að horfa á fjörðinn og að hann væri fórnarlamb hrottalegs ofbeldis. Þvílíkur ósómi. Kaldhæðnislegt að Sómastaðir skuli standa við hlið þessa ósóma og hafi ekki enn verið rifnir niður- litlu munaði þó- og efast ég stórlega um að einhver viti að þetta er friðað hús. Það er eins og fólkið sem tekur þátt í slíkri ákvarðanatöku hafi aldrei staldrað við og spurt sjálft sig; vil ég skemma þessa náttúru? Vil ég þetta virkilega? Langar mig svona mikið til þess að búa til peninga úr álframleiðslu sem á hvort eð er eftir að falla í verði? Get ég ekki fyrir nokkra muni fundið einhverja aðra leið til að búa til peninga heldur en að skemma landið? Ég styð mótmælendur Kárahnjúkavirkjunnar og annarra virkjanna þar sem náttúruspjöll hljótast af heilshugar. Ég get ekki og mun aldrei skilja svona hugsunarhátt.




Ég var gjörsamlega búin á því andlega eftir þennan dag. Þvílíkar hræringar sem eiga sér stað innra með manni á svona stað og stund. Maður finnur að það er svo margt sem skiptir máli í þessu lífi heldur en efnishyggja og velmegun. Átti þarna mjög góðan dag þar sem hin ýmsu gildi og þættir í lífinu voru vegin og metin, svona moment in time innra með sjálfri mér, mjög tilfinningaþrungið- en þannig er nú bara ég.

Mánudagur. Ekki minni dagur fyrir upplifun á stórfenglegu landslagi og innri jarðhræringum. Við fengum svona líka svakalega fínt veður- heiðskírt alla austfirðina og meðfram suðurströndinni. Fórum yfir Exi og komum niður í Berufjörð. Sáum alla skriðjöklana niður úr Vatnajökli eins og ég sagði áður ásamt Breiðarmerkurjökli, Jökulsárlóninu, Skeiðará, Skeiðarársandi, Skeiðarárjökli, Mýrdalsjökli, Mýrdalssandi, Markarfljóti, Lómagnúpi, Laufskálavörðu og så videre og så videre......allt sem hægt er að sjá á Austur- og Suðurlandi það sáum við, bara ólýsanlegt alveg. Og svo náttúrulega hnjúkurinn í öllu sýnu veldi. Svolítið merkilegt að sjá bæði hæsta fjall landsins, Hvannadalshnjúk, og hæsta fjall landsins utan jökla, Snæfell, á sama deginum. Stanslaus gæsahúð bara.


Náttúrunnendur, og þá sérstaklega íslenskrar náttúru, vita að hvorki orð né myndir fá svona upplifun nægilega vel lýst. Þetta er spurning um að vera þarna. Læt því staðar numið hér.

K8

Friday, August 04, 2006

Sketsj: kven-menn

Par labbar inn á bar. Eins konar kaffi-bar.

Hann er klæddur í síðan rós-doppóttan kjól með krullaða, ljósa hárkollu og ljótan kerlingalegan hatt á höfðinu. Hann er líka með rautt trúðanef sem situr fast án þess að nein teygja sjáist. Hann heldur á stóru "Mary Poppins" veski sem fær að hvíla í kjöltu hans líkt og fjársjóður. Hann er heldur búlduleit og kíkir varfærnislega til beggja hliða þar sem hún situr við kringlótt borð og reynir að kæfa hláturinn sem byggst hefur upp innra með henni. Hann er hún.

Hún er klædd í teinótt Armani-jakkaföt, með svartan mafíósa-hatt með hvítum borða, skáhallt á höfðinu. Hún er með stutt hár sem sleikt er niður með gelatíni og mjótt yfirvaraskegg- oddhvasst til beggja hliða. Hún stendur og reykir vindling, pirraður sig á hversu seinlega þjónustan gengur fyrir sig og hversu heimsk gengilbeinan sé. Hún er reiður ungur maður. Hún er hann.

Þau panta.
Hann fær sér bjór og hellir restinni ofan í Mary-Poppins hattinn. Það verður að spara sjáðu til. Við eigum þá bjórinn til góða. Hún fær sér heitt súkkulaði með rjóma. Drekkur bara rjómann. Lífið er gott, lífið er velmegun. Horfir út í loftið, er svöl -með sígó.

-"Konur eru líka menn!!"....

-"Æi þegiðu, vertu ekki með þessa kvenrembu og drekktu".

K8