Wednesday, August 09, 2006

1734 km

Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja það er svo margt sem hrærist innra með mér. Ég er búin að upplifa svo ótrúlega mikla fegurð, náttúrufegurð, en á sama tíma svo mikil náttúruspjöll að það má segja að ég sé einn tilfinningalegur hrærigrautur að innan. Fjöll, dalir, firðir, hraun, virkjanir, mosi, sól, rigning, sólsetur, auðn, stíflur, hálendið, jarðvarmi, fjalladrottningar, skriðjöklar, sandar, ár, fljót, lækjarsprænur, fossar, eyjar, hamrar, drangar, þoka, heiðríkja- allt þetta á svona skömmum tíma; einni helgi. Kannski ekki að undra að ég viti ekki alveg hvar ég ætti að byrja en þó byrjaði þetta allt saman við eldhúsborðið hérna heima í hádeginu á laugardag. “Mamma, eigum við ekki bara að skella okkur í útilegu?” “Jú- drífum okkur” og þannig hófst hringferð okkar mæðgnanna sem við fórum núna um helgina.

Mér hefur verið mikið umhugað um virkjanir og stóriðjuframkvæmdir og áhrif þeirra ásamt öðrum hlutum að sjálfsögðu, á náttúruna í kringum mig. Megintilgangurinn með ferðinni var því að svala þörf minni fyrir að koma að Kárahnjúkum og skoða þetta landsvæði sem mun senn fara undir vatn þegar fyllt verður upp í Hálslón. Einnig var stór tilgangur ferðarinnar að skoða alla skriðjöklana úr Vatnajökli sem eru að hopa vegna gróðurhúsaáhrifa og hækkandi hita á jörðinni. Verður að segjast að ef til eru veðurguðir þá voru þeir okkur svo sannarlega hliðhollir því að skyggnið var það gott að við sáum í Hvannadalshnjúk alla leiðina frá Höfn í Hornafirði.




Við ákváðum að fara norðurleiðina og er ekki hægt að segja að allra besta veðrið hafi fylgt okkur á laugardeginum, keyrðum mestan partinn í þoku og súld- allavega lengst norður yfir Öxnadalsheiði- en þá fór loksins að sjást til sólar. Ég hafði hlakkað mikið til að sjá Hraundranga- en útlitið var ekki bjart, í bókstaflegri merkingu, að þeir myndu sýna sig. Í öllu sínu veldi gerðu þeir það þó, sveipaðir dulúðlegri þoku, sem svo rofaði til akkúrat þegar við keyrðum framhjá þeim.

Þar sem veðrið var ekki með besta móti á laugardeginum þá ákvað ég að í stað þess að vera alltaf að stoppa bílinn til þess að taka myndir þá myndum við bara gera nokkurs konar heimildarmynd. Tókum bara fullt upp á video og er alveg meinfyndið að sjá þetta núna aftur- verður gaman að skoða þetta í ellinni og segja e.t.v. “jæja hérna eru langamma (ég) og langalangamma (mamma) uppi hjá stíflunni við Kárahnjúka – þetti svæði er undir vatni núna” -sem verður auðvitað leiðinlegi parturinn að segja frá. There’s always a downside. En samt- gaman að þessu. Þetta varð auðvitað þess valdandi að síðari hluta ferðarinnar þurfti ég að kaupa einnota myndavélar vegna þess að ég tímdi engan veginn að eyða þessum myndskeiðum og minniskortið fylltist.

...Og norður norður norður við keyrðum, komum að Mývatni- því stórbrotna svæði. Keyrðum í gegnum heilu stormsveipana af mýi. Hverfjall- Dimmuborgir- Höfði... já, það er ástæða fyrir því að þetta er vinsæll ferðamannastaður. Fegurðin er svo stórfengleg. Fór reyndar ekki upp á Hverfjall í þetta skiptið, been there-done that... and will do again again many many times in the future :)

Svo voru það Möðrudalsöræfin. Þetta landslag á svo innilega við mig. Steingrái liturinn sem þarna var í bland við himininn, bleiku skýin og fjólubláan himininn. Þarna lét Herðubreið sjá sig. Hvílík stund- hvílíkur kyngimagnaður kraftur. Orðum ofaukið? Nei- málið er að þarna er landslagið svo hrikalegt, svo fallegt, að aldrei munu duga næg orð til að lýsa þessu. Þeir sem ekki hafa komið þarna vita ekki hvers þeir fara á mis við. Að keyra svo yfir brúna við Jökulsá á Fjöllum og horfa ofan í gljúfrið- þvílíki krafturinn. Ekki virkja þeir orkuna í þjóðgarðinum, efast samt ekki um að þá langi til þess. Þarna náði ég nokkrum myndum af einu magnaðsta sólarlagi sem ég hef séð.



Eftir að hafa keyrt meðfram Jökulsá á Brú (Jöklu) og séð Dýrfjöll hverfa í sólarlaginu tjölduðum við í kolniðamyrkri í Þurshöfðavík í Hallormsstaðaskógi. Ég hafði ekki tjaldað tjaldinu fyrr og verð því að hreykja sjálfri mér óspart fyrir að hafa gert það á mettíma með hana móður mína yfir mér, sjáandi til þess að öngvir hælar týndust með tilheyrandi stressi. Mæður eru yndislegar - við þekkjum það öll - en eftir níu tíma akstur vildi ég bara tjalda tjaldinu í friði- ég elska þig mamma :)

Ég mæli með tjaldstæðinu í Þurshöfðavík, öll aðstaða var þar til fyrirmyndar og ekki spillti fyrir að fá dásamleg egg og bacon í morgunmat og nescafé gull. Við kunnum að hafa það náðugt í útilegum, ég og móðir mín. Sunnudagurinn var runninn upp og var ætlunin að skoða stífluna að Kárahnjúkum, sem við og gerðum, ásamt því að skoða Skriðuklaustur, Reyðarfjörð og Stöðvarfjörð.


Þegar fólk talar um að það skipti engu máli þótt vatn muni þarna flæða yfir allt landsvæðið því það komi enginn þangað hvort eð er, nema kannski Ómar Ragnarsson, þá verð ég hvumsa. Reyndar verð ég bara alveg brjálæðislega reið inn í mér. Það er eins og að fólk skilji ekki að einmitt þessi auðn, þetta ósnortna landsvæði og náttúra, sé svo merkileg í sér. Ísland er ósnortið landsvæði. Nú ætla ég ekki að fara að tala um lífríkið og allt það því það er að sjálfsögðu heill kapítuli útaf fyrir sig. Málið er að með því að reisa svona stíflu, líkt og Kárahnjúkastíflu, og fylla upp í lón- Hálslón- þá tekur svo stuttan tíma þar til landsvæðið fyllist af aur, kannski mannsaldur og varla það, og það eru óafturkallanleg náttúruspjöll. Svona er það nú með vatnsfallsvirkjanirnar. Öðru máli gegnir með jarðvarmavirkjanir- rörin er nú hægt að fjarlæga síðar meir svo þær valda þannig séð ekki skemmdum þótt þær séu ekki neitt sérstaklega fallegar.


Svo fær maður það líka á tilfinninguna að það sé fólk sem hefur aldrei gefið sér tíma í að ferðast um landið sem er að taka þessar stóru ákvarðanir. Skrifar bara nafnið sitt hér og þar á blað og þá er búið að ákveða að setja álver hingað og virkjun þangað. Ég hef ekki séð jafnljóta háspennustaura og lágu frá Kárahnjúkum og alla leið út í Reyðarfjörð. Það er búið að skemma Reyðarfjörð og ásýnd hans með þessum líka ljótu kerskálum. Mér hefur sjaldan liðið jafnilla. Leið eins og ég væri að horfa á fjörðinn og að hann væri fórnarlamb hrottalegs ofbeldis. Þvílíkur ósómi. Kaldhæðnislegt að Sómastaðir skuli standa við hlið þessa ósóma og hafi ekki enn verið rifnir niður- litlu munaði þó- og efast ég stórlega um að einhver viti að þetta er friðað hús. Það er eins og fólkið sem tekur þátt í slíkri ákvarðanatöku hafi aldrei staldrað við og spurt sjálft sig; vil ég skemma þessa náttúru? Vil ég þetta virkilega? Langar mig svona mikið til þess að búa til peninga úr álframleiðslu sem á hvort eð er eftir að falla í verði? Get ég ekki fyrir nokkra muni fundið einhverja aðra leið til að búa til peninga heldur en að skemma landið? Ég styð mótmælendur Kárahnjúkavirkjunnar og annarra virkjanna þar sem náttúruspjöll hljótast af heilshugar. Ég get ekki og mun aldrei skilja svona hugsunarhátt.




Ég var gjörsamlega búin á því andlega eftir þennan dag. Þvílíkar hræringar sem eiga sér stað innra með manni á svona stað og stund. Maður finnur að það er svo margt sem skiptir máli í þessu lífi heldur en efnishyggja og velmegun. Átti þarna mjög góðan dag þar sem hin ýmsu gildi og þættir í lífinu voru vegin og metin, svona moment in time innra með sjálfri mér, mjög tilfinningaþrungið- en þannig er nú bara ég.

Mánudagur. Ekki minni dagur fyrir upplifun á stórfenglegu landslagi og innri jarðhræringum. Við fengum svona líka svakalega fínt veður- heiðskírt alla austfirðina og meðfram suðurströndinni. Fórum yfir Exi og komum niður í Berufjörð. Sáum alla skriðjöklana niður úr Vatnajökli eins og ég sagði áður ásamt Breiðarmerkurjökli, Jökulsárlóninu, Skeiðará, Skeiðarársandi, Skeiðarárjökli, Mýrdalsjökli, Mýrdalssandi, Markarfljóti, Lómagnúpi, Laufskálavörðu og så videre og så videre......allt sem hægt er að sjá á Austur- og Suðurlandi það sáum við, bara ólýsanlegt alveg. Og svo náttúrulega hnjúkurinn í öllu sýnu veldi. Svolítið merkilegt að sjá bæði hæsta fjall landsins, Hvannadalshnjúk, og hæsta fjall landsins utan jökla, Snæfell, á sama deginum. Stanslaus gæsahúð bara.


Náttúrunnendur, og þá sérstaklega íslenskrar náttúru, vita að hvorki orð né myndir fá svona upplifun nægilega vel lýst. Þetta er spurning um að vera þarna. Læt því staðar numið hér.

K8

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

2500 km. sá allt sem þú lýstir kannski einum degi fyrr, kannski einum degi seinna eftir að þú varst þarna. Dvaldi i Hallormsstaða-skogi, skoðaði kárahnjúka og keyrði yfir Öxlina. Þvílík fegurð,...varð huxað til þín.

kv, B.

2:15 PM  
Blogger Katrín said...

.... :) en ótrúlega sniðug tilviljun. Það var reyndar mikið um hux, óneitanlega- við fórum jú síðast hringinn saman. Ennþá skemmtilegri tilviljun að ég skyldi hafa sé YY 045 í umferðinni í dag! Skrýtið að hugsa til þess að við fórum hringinn á þeim bíl- hlustandi á Lowrider ansi oft og þá sérstaklega á kaflanum frá Vík og "tilbaka" í Ás ;)

5:55 PM  

Post a Comment

<< Home