Thursday, August 31, 2006

Hugvekja

Diskurinn "In Memoriam" spilar undir...

Oft hef ég setið með orð í huganum fyrir framan þessa tölvu, þessa blessuðu óstabílu tölvu frá Nýherja, og hugsað með sjálfri mér hvort ég eigi nokkuð að vera að varpa hinum og þessum hugsunum fram í Netheimum. Er nefnilega oft með skjaldböku-syndromið á háu stigi og þá langar mig bara til að hoppa inn í skelina og verja mig fyrir alheiminum.

Í kjölfar fráfalls ungs manns sem átti allt lífið framundan hef ég hugsað margt og langar að deila brotabroti af því með ykkur hér. Ég hef hugsað og hugsað um lífið og tilveruna og tilganginn og allt saman. Kemst aldrei að neinni niðurstöðu, kemst jú að þeirri niðurstöðu að því meira sem ég hugsa- því minna veit ég.

Ég hef í gegnum ævina mikið spáð í guð og trúarbrögð og eilíft líf. Kemst ekki að neinni niðurstöðu- ég er og hef alltaf verið þannig að það þarf yfirleitt að "sanna" hlutina fyrir mér, koma með áþreifanleg sönnunargögn fyrir hlutunum og þá sannfærist ég. Svolítið erfitt í þessum efnum, þar sem í orðinu trú felst einmitt þetta "að trúa" en ekki "að færa rök fyrir".

Máltakssjúklingurinn hefur verið fjarri góðu gamni um nokkurn tíma en kom þó upp í mér um daginn. Ég fór að hugsa um orðasambandið "eilíft líf". Ei-líft líf. Líf sem ei er lifandi... þetta orðsamband truflar mig eitthvað núna. Skil ekki hvers vegna ég hef ekki komið augu á þetta fyrr. Eilíf orka er annað - mun auðveldara fyrir mig að meðtaka það. En samt gat ég réttlætt orðasambandið með því að nota ljósmyndir og aðrar myndir, ég er haldin mikilli þráhyggju varðandi það að skoða myndir. Á þann háttinn má segja að hlutirnir í tilverunni öðlist eilíft líf, þegar ég skoða myndir af liðnum atburðum og fólki sem er farið - þá eru taugaboð í gangi í heilanum á mér og ég er lifandi... mjög góð rökfærsla fyrir "eilífu lífi" verð ég að segja.

Trú, tilgangur, eilíft líf... Ég kemst ekki að neinni niðurstöðu með þetta núna. Kannski er þetta eins og erfiða stærðfræðidæmið í menntó þar sem maður þurfti að bara að leggja frá sér stærðfræðibókina í einhvern tíma og hvíla höfuðið, svo gat maður fundið lausnina mjög auðveldlega næst þegar maður kíkti á það. Kannski poppar svarið inn í hausinn á mér einhverja nóttina þegar ég ligg andvaka og ég sendi svarið til einhvers í sms-i ;)

Að öllu gamni slepptu þá er mín skoðun sú að hver og einn þurfi að finna sér sinn tilgang hérna á þessari jörðu, þessari jörðu þar sem lífið okkar er svo stutt og líður svo hratt framhjá að við gerum okkur ekki grein fyrir því. Það er ekki tími til þess að velta sér upp úr því hvort maður eigi að gera hlutina eða ekki, maður verður bara að gera þá því augnablikið kemur ekki aftur. Lífið er líka of stutt til að hika- til að hætta við - og sjá eftir. Þú átt bara að ýta sjálfum þér yfir þín mörk eins og þú þekkir þau, taka áhættur og stökkva yfir pollinn. Hann er stundum stór og það skvettist helling af drullu á þig, fötin verða gegnblaut og þú rispast jafnvel. En þá ferðu bara í sturtu, skiptir um föt og setur plástur á sárið. Ef þú prófar ekki að stökkva yfir pollinn, þá veistu nefnilega ekki hvort þú gætir hreinlega svifið yfir hann, fengið meðvind og lent bara mjög vel lengst hinum megin við hann. Og sú tilfinning- ..... það er góð tilfinning og vel áhættunnar virði.

Það er líka ofsalega mikilvægt að við stoppum, förum aðeins út fyrir sjálf okkur og horfum á lífið okkar frá hlið og njótum þess sem við erum að gera. Hvað svosum það kann að vera, skemmtilegt eða leiðinlegt. Hvort sem það er erfitt próf framundan, partý, þynnka á sunnudegi, vandræðaleg þögn, umferðarteppa, göngutúr í góðu veðri, erfiðar áskoranir og ákvarðanatökur ..... bara rétt aðeins að staldra við og njóta þess að vera staddur í aðstæðunum, vera staddur í hversdagsleikanum, njóta þess að vera staddur í lífinu hér og nú. Vera í núinu. Núið og lífið; það kemur ekki aftur í þeirri mynd sem við þekkjum það. Ég gleymi þessu stundum- þó svo að minnið sé nú ansi gott.

Í lífinu hittum við fyrir alls konar fólk, fólk sem okkar líkar misvel við. Við erum mismunandi samansett og höfum mismunandi skapgerðir og húmor. Sumir eru skemmtilegri en aðrir og okkur finnst við eiga samleið með, aðrir eiga ekki jafnvel við okkur. Stundum fjarar vinátta út einhverra hluta vegna og sum vináttusambönd endast ævilangt. Það er mikilvægt að rækta góð vinasambönd við fólk og reyna að láta sér lynda við náungann.

Ég get verið mjög skapvond og frek en ég hef í gegnum lífið haft þá reglu að fara aldrei að sofa í ósætti við mína nánustu, það er góð lífsregla sem ég mæli með að fólk reyni að lifa eftir. Lífið er bara alltof stutt til að vera í ósætti og ég myndi ekki vilja skilja við neinn í hinsta sinn í ósætti. Ég yrði þá að vita að ég hefði a.m.k reynt að sættast- reynt að leysa málin og beðist afsökunar. Ef ég hef gert eitthvað á hlut einhvers þarna úti og hef ekki nú þegar beðið sá hinn sama afsökunar þá hef ég bara eitt að segja; fyrirgefðu. En þó ræður enginn yfir öðrum einstaklingum og verður því hver og einn að gera það upp við hvort hann veiti fyrirgefningu. Og að fyrirgefa- það er eitthvað sem þarf að gera af heilum hug alveg innst inn að hjartarótum. Það er eiginlega betra að fyrirgefa ekki heldur en að gera það ekki í hjartanu sínu.

Ég er sú sem ég er vegna allra þeirra hluta sem á daga mína hafa drifið, ásamt erfðaþáttum og mörgu fleiru. Fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni hefur líka haft stór áhrif á mig. Margt af þessu fólki umgengst ég ekki í dag en það hefur samt haft heilmikil áhrif á mig og kennt mér mikið. Kennt mér um lífið og tilveruna, kennt mér um samskipti, kennt mér um hina og þessa hluti- sumt staðreyndir um heima og geima. En flestallt það fólk sem ég hef kynnst og átt samtal við, hvort sem það hefur verið um stutt skeið eða lengri tíma, á það sameiginlegt að hafa kennt mér eitt af mikilvægari þáttum lífsins; að líta í eigin barm. Fyrir það langar mig að koma á framfæri þakklæti til ykkar allra; takk.

K8