Sunday, March 15, 2009

Með morgunkaffinu...

Sunnudagur í Salzburg. Kertaljós og Celine Dion- ég veit það ekki, en það er eitthvað sem knýr mig til að hlusta á hana þessa dagana. Eins og það er eitthvað sem knýr mig til að skrifa meira- ég finn þörf og löngun til þess. Það er dýrmæt tilfinning- löngun. Maður áttar sig á því þegar hún er ekki til staðar. Eins með innblásturinn, hann er kærkominn. En það þarf líka að viðhalda honum, vökva hann eins og blóm - annars deyr hann. Vá- kannski ekki alveg svona dramatískt en samt.

Það er svo fyndið með þessar langanir sem eru inní manni, - það er enginn sem stöðvar mann nema manns eiginn ótti eða framtaksleysi... þessi "ég nenni því ekki" tilfinning- en kannski er hún í grunninn líka bara ótti við að leggja eitthvað á sig.

Það er eiginlega rigning úti, - allavega grátt. En það er allt í lagi- mér finnst svona veður fínt, það er ennþá í takti við skapið í mér ... en vorið er í loftinu, líka innan í mér. Ég ætla í göngutúr í dag. Þó svo að dagurinn sé ekki brakandi- hann brakar bara á annan hátt í dag.

Það er gott að vera farin að lesa aftur eins og þegar ég var unglingur, ég ét í mig hverja bókina á fætur annarri. Það gefur mér líka innblástur og vissu um að "þegar öllu er á botninn hvolft þá endar allt einhvern veginn" H.L. Það er svo fyndið hvernig persónur í bókum verða oft vinir manns og maður fer að lesa hægar af því að maður vill þekkja persónurnar lengur og vita meira.
Og að geta brosað og hlegið upphátt vegna þess sem maður les- það er þannig sem bókmenntir eru svo gjöfular. Við erum öll eitthvað svo mannleg. Maður lærir að þekkja sjálfan sig í mismunandi aðstæðum og maður öðlast nýja reynslu,- já þetta heillar mig ótrúlega mikið.

Mig langar að vera rithöfundur. Ég hef hugsað þetta í fjöldamörg ár, alveg síðan ég var krakki - og sagt nokkrum vel völdum einstaklingum frá þessari löngun- en einhvern veginn ekki viljað segja hana upphátt. En nú segi ég það bara- mig langar að verða rithöfundur. Þá þarf ég auðvitað að byrja að skrifa- og hætta að stroka út orð og setningar. Til þess að takast eitthvað þarf að mistakast. Til þess að skapa eitthvað þarftu að prófa allt- bæði gott og vont og svo sjá hvað þú vilt... Ég er allavega ekki enn búin að gefast upp á þessu bloggi eða skipta um slóð til að byrja upp á nýtt og er það vel. Þannig mun það vera.

En svo er líka svo fallegt að maður þarf ekki bara að verða eða vera eitthvað eitt- maður þarf ekki að útiloka annað til að velja eitt.

Það er gott að breytast.

K8

Tuesday, March 10, 2009

Val # 3

Þegar þú fyrst sleppir, þá kemur það til þín..

Einfalt- og í raun ótrúlega fallegt.

K8

Sunday, March 08, 2009

Val # 2

Ef valið er algjört þá þarf að finna viljann. Hvað vil ég velja- hvað vil ég gera. Hvert vil ég fara- hvaða vil ég upplifa, hvað vil ég sjá, heyra, njóta, borða, kynnast - hvað vil ég. Þá er valið einhvern veginn ekki lengur eitthvað fyrir utan sjálfa mig- það er algjörlega innan í mér. En samt fyrir áhrifum umhverfisins og alls sem ég hef nú þegar valið og ekki valið að upplifa.

Þetta er stanslaust í hausnum á mér, af hverju veljum við eins og við veljum og af hverjum gerum við það sem við gerum. Ég gerði við gammósíur áðan. Ég valdi að gera það- hitaði kaffi sérstaklega og kom mér vel fyrir, ég er ekki vön að sauma og hef ákveðnar skoðanir um sjálfa mig og saumaskap. Ég valdi bara að gera við þessar gammósíur af því mig langaði að upplifa það að sauma og gera við. Ég þurfti ekki að gera það- búin að dansa í þessum götóttu gammósíum í marga mánuði og gæti alveg eins gert það áfram, en það var einhver löngun til þess að framkvæma þessa athöfn og bara finna hvernig það er- án þess að dæma. Svo henti ég fullt af drasli í ruslið- mig langaði að hreinsa aðeins til.

Þegar ég vaknaði var sól og blár himinn - kristaltær og brakandi dagur beið mín. Mig langaði út að ganga sitja hjá ánni eins og vanalega og hugsa og skrifa. En nú er orðið skýjað og mig langar ekki lengur til þess að gera þetta. - Auðvitað gæti ég gert þetta, en er með svona "ég nenni því ekki tilfinningu".

"Ég nenni því ekki"-tilfinningin er reyndar svolítið sérstök. Það er talið neikvætt að vera latur og að nenna ekki. Procrastination. Ég veit það ekki- undanfarið hef ég bara ekki nennt neinu á undarlegan hátt, - ég geri það samt. Jú jú ég fer á fætur fer í skólann fæ mér að borða þvæ þvott skrifa BA ritgerð skrifa email blogga smá ... En það er samt löngun inni í mér til þess að verða hugfangin af einhverju og gjörsamlega missa mig í því, - geta ekki sofið vegna hugsana um það- ferðast til að uppgötva eitthvað nýtt, eyða ótaltíma í rannsóknir og að kynna mér hluti..... og einhvern veginn gleyma mér algjörlega í einhverju... en hverju- en hverju EN HVERJU? en það gerist einhvern veginn ekki. Kannski er það málið... kannski þarf ég að velja að missa mig í einhverju og velja að verða hugfanginn af einhverju.

Hugsa mikið um að skrifa- einmitt það "HUGSA" um það- geri það ekki- jú auðvitað núna, en samt. Sjálf þoli ég ekki að vera á leiðinni endalaust að gera eitthvað .. en svo gerir maður það einhvern veginn aldrei. Procrastianation. Kennir öðrum um- skorti á tíma, þurfti að gera þetta, þurfti að gera hitt- þetta er allt svo mikið bullshit. Ótrúlegt hvað 24 klukkustundir eru misjafnlega vel nýttar eftir einstaklingum. Maður býr til tíma.

K8.

Val

Ég vel að skrifa þessa færslu. Ég hef ekkert að segja, en ég skrifa samt þessa færslu. Ég vel þessi orð, þessar setningar- en í sjálfu sér skipta þær engu máli núna- megin markmiðið er bara að skrifa eina færslu. Svo fer ég að sofa. - það er líka val. Ég gæti valið að vaka í alla nótt- af því bara. Ég gæti valið að klippa út myndir úr tímaritum og hengja þær á veggina. Það væri líka val. Ég gæti ákveðið að klæða mig upp, mála mig - fara í hælaskól drekka mig fulla á bar og heita Lise Lotte frá Noregi í viðskiptaferð. Ég gæti valið að gera það. Ég gæti valið að hætta í skólanum, báðum skólunum, og látið mig hverfa. Ég get valið að snoða á mér hausinn og sprauta mig með heróíni. Ég get valið að selja mig og græða evrur aukalega meðfram námslánunum. Ég get valið að breyta nafninu mínu. Ég get valið að ljúga um uppruna minn í hvert skipti sem ég hitti nýjan einstakling. Ég get valið að sofa hjá öllum strákunum í skólanum. Ég get valið að sofa hjá öllum stelpunum í skólanum. Ég get valið - það er nefnilega málið- ég á val og valið er mitt- en hvað vil ég velja. Allt er í boði. Allt. Líka að velja ekki. Bara pæling.

K8

Friday, March 06, 2009

6. mars 1999

Í dag eru liðin 10 ár frá þeim degi. Tempus Fugit.

K8

Thursday, March 05, 2009

Þetta er allt að koma...

Það er vor í lofti. Moldarlykt. Snjórinn að bráðna ofan í jörðina. Snjórinn bráðnar úti- og inni.

Hætt að nota húfu.

Sólin er farin að skína úti - og inni.

K8.