Friday, March 31, 2006

ljóð

Óður til lesenda

Nú langt um liðið er,
síða þessi grotna fer,
ef rita ég eigi nú.

Menn mig spyrja; Hvað er títt?
Ég því svara: Ekkert nýtt!
Þar fór kenning sú.

Þegar úti gott er veður,
er sólin skín og mitt hjartað gleður,
þá bregði ég mér í sund.

Vetrarvindar blása – þá fer ég ei út,
þeir kæla minn kropp og setja að sút,
kakó gleður á slíkri stund.

Á ég að sitja við ritgerðarskrif,
en kýs þá heldur að fást við þrif,
það samræmist eigi mér.

Holan er eins og Hiroshima,
í þrif ég eyði ei óþarfa tíma,
les frekar um konung Lér.

Nú dagur senn að kveldi er kominn,
við tölvuna sit ég frekar dofin,
og skrifa þetta ljóð.

Þegar gætir nýrra frétta,
ykkur ég segi þá allt af létta,
með því kveður hið unga fljóð.

K8

Wednesday, March 15, 2006

Seigla



Þetta er jólakaktus. Hann er eina plantan sem mér hefur nokkru sinni tekist að halda á lífi. Eitt sinn þá dró ég ekki gardínurnar (teppið) frá glugganum í marga marga... well, ansi marga daga og þá varð jólakaktusinn fjólublár og skorpinn. Margir héldu að þetta væri hans síðasta en ég neitaði að gefa hann upp á bátinn- ætlaði ekki að verða manneskja sem tekst að drepa kaktus.

Ég dró gardínurnar frá, gaf honum að drekka og leyfði honum að standa og baða sig í sólskininu það sem eftir var sumri. Smám saman fór jólakaktusinn að grænka og ekki leið á löngu þar til hann fór að blómstra!

Ég hef nú gætt þess síðastliðið ár að hann fái vatn og sólarljós með reglulegu millibili eins og sönnum húsbónda ber að gera. Um daginn gleymdi ég að draga gardínurnar frá í nokkra daga og varð svo skyndilega hugsað til plöntunnar minnar; ég hafði næstum gleymt henni! Mér til ánægju og yndisauka þá blasti við mér fögur sjón er ég dró gardínurnar frá. Þarna var hann vinurinn kæri, kominn í fallegan blóma og blikkaði til mín. Hann hvíslaði: Hey Kata! Ekki gleyma mér nú sem ég er farinn að blómstra! Ég kinkaði kolli, fór með hann inn á bað og gaf honum vatnssopa.

Jólakaktusinn kom inn í líf mitt á nákvæmlega sama degi og ég hóf skriftir mínar í Netheimum eða þann 21. desember 2004. Ég hef sinnt þeim tveimur misvel. Ég hef tekið góðar skorpur í skrifunum þar sem hægt er að segja að máltakssjúklingurinn gegni hlutverki brumsins og svo hef ég jú oft munað eftir því að vökva blómið mitt. En þetta eru harðgerðir hlutir sem gefast ekki auðveldlega upp.

Góðar stundir.

K8

Friday, March 03, 2006

Flabbergasted

Einu sinni fannst mér skemmtilegt þegar einhver teiknaði nokkra punkta á blað og svo fékk ég að teikna furðuverur út frá því. Það var svona eins konar byrjun- einhver sem startaði mér. Ég hef reyndar lúmskt gaman að því ennþá. Ég bað um lykilorð um daginn til að starta mér á ný í skrifum. Mér til óvæntrar ánægju fékk ég úthlutað orðinu "flabbergasted" (to flabbergast). Hvað merkir það? Ég bendi ykkur hiklaust á orðabók.... það mun koma ykkur skemmtilega á óvart!

Stálmúsin eða Katmobil átti að fara í bað um daginn. Ég fór með hana á þvottastöðina og skrúbbaði og skrúbbaði (að ég hélt nægilega vel). Ég var rosalega ánægð með þetta góða framlag mitt til betri lifnaðarhátta og umhirðu við minn staðfasta farskjótta. Já, neinei - sól í Reykjavík og mjög svo greinilegt að ég hafði ekki skrúbbað sem skyldi. Það er svolítið um "burstaför" á lakkinu. En ég ætlaði sumsé að ráða bót í máli og kom við á þvottastöðinni í fossvogi. Já, neinei- lokað fyrir vatnið útaf hitastigi. Great.

Annars er ég á móti of-þrifnaði og hef alltaf verið. Fólk á ekki að þrífa of oft heima hjá sér né fara í bað alltof oft. Held að með því móti komist maður hjá því að rækta með sér ofnæmi fyrir hinum og þessum hlutum. Heyrði einhvern tímann þá sögu að gott væri að fara í pottana á vissum tíma dags þegar visst gerlastig væri sem mest til þess að styrkja ónæmiskerfið sitt. Ég ætti kannski að fara að stilla inn á þennan tíma dags til að fá meira fyrir 200 kallinn minn en græna sápu og húðflögur annarra. Huggulegheit í pottunum :)

Ábending dagsins: Myndin hér til hliðar sýnir mjólkurkex frá Frón í bláum pakka og undir er letrað "gróft og ósætt kex". Vildi koma því á framfæri að grófa mjólkurkexið frá Frón er rauðum pakkningum- ekki bláum.

Maður dagsins: Lester Burnham

K8