Wednesday, June 14, 2006

"The rest of my life"

Hvað er það?
................................................ Ég er ennþá að hugsa þetta concept. Ég næ því ekki alveg..................... Neibb, þetta ætlar ekki að síast inn hjá mér. Fyrir stutt heyrði ég "Ég er að leggja grunninn að "the rest of my life". Ég stoppaði og hugsaði um þetta og er augljóslega ennþá að hugsa um þetta.

Hvernig er hægt að leggja grunn að því sem maður á eftir ólifað þegar enginn veit sína ævina fyrr en öll er og meira að segja þá- á því andartaki þegar við deyjum- munum við ekki gera okkur grein fyrir því að þetta er allt saman búið. Það er ekki sjálfsagður hlutur að við verðum gömul og fáum að njóta lífsins með KB- lífeyri og gert allt sem við viljum. Engan vegin. Það er tilviljun. Ég veit ekki hvort ég verð til á morgun, eða á eftir- þó svo það væri auðvitað skemmtilegra.

"Að lifa lífinu til hins ítrasta og lifa sérhvern dag eins og hann væri sá síðasti."
Þetta er gott concept- en er það raunhæft? Ef allir gerðu þetta þá yrði vafalaust ögn meiri ringulreið í samfélaginu. Ögn. Það verður að gera ráð fyrir framtíðinni upp að vissu marki þó svo að ekki sé hægt að taka henni sem sjálfsögðum hlut.

Sem dæmi: Ég fékk mér teina vegna þess að ef ég geri það ekki núna þá gætu tennurnar losnað eftir 5-10 ár vegna fyrirbæris sem kallast "late-crowding". Ég vil það síður. Teinarnir taka ca. tvö ár. Ég geri semsagt ráð fyrir því að losna við teina eftir 2 ár- og þar með koma í veg fyrir fyrirbæri sem gæti gerst eftir 5-10 ár. Þá geri ég ráð fyrir að vera hérna til að brosa framan í heiminn. Og heimurinn mun þá væntanlega hlæja að mér ef allt gengur eftir. En svo veit ég ekkert um það hvort ég detti með tennurnar á kantstein þegar ég er að hlaupa til að ná í súkkulaði til að borða meðan ég glápi á "ER" (ef það verður ennþá til) og enda svo sjálf á slysó. Það er möguleiki á því.

Nú er ég að klára Kennó. Búin að fá allar einkunnir og einingar og það eina sem stendur eftir inni á Uglu er "brautskráning í júní". Haustið 2003 fannst mér vor 2006 vera ROSALEGA langt í burtu. Ég á sterka minningu um það. Ég á líka minningu frá grunnskóla þegar mér fannst ofsalega merkilegt þegar árið 2000 kæmi. Á tímabili var ég líka ofsalega fegin að vera yngri en einhver vegna þess að ég taldi fullvíst að þar sem frumurnar í því fólki væru eldri- þá myndi ég lifa lengur. Saklaus er þankagangur æskunnar.

Tíminn líður hratt, best að vera í góðu skapi því BÚMM - svo hefur feita konan sungið sinn svanasöng.

K8

0 Comments:

Post a Comment

<< Home