Tuesday, September 16, 2008

GrüS Got!

Ég hef velt miklum vöngum yfir þessu bloggi, þetta er jú viss heimildaskráning þannig séð. Um bullið í mér, lífið og tilveruna. Upp á síðkastið hefur það nú aðallega verið kexið á kálinu en það er víst á undanhaldi núna. Hef ákveðið að halda utan um námsdvöl mína í Salzburg, Austurríki- sem nú er ljóslifandi staðreynd, hér á þessum ljósvakamiðli. Ég ætla bara að hafa þetta á hér á kexinu, vil ekki stofna nýtt blogg, þetta tilheyrir jú allt saman mér og þá er bara eins gott að hafa allt á einum stað. Svo er það líka þannig í lífinu að maður byrjar ekki allt í einu "upp á nýtt", allavega ekki í mínu lífi- ég tek alla reynslu með mér áfram, reyni að læra af henni- en það tekst ekki alltaf. Svo lengi lærir sem lifir... (hversu lengi kemst ég upp með að skýla mér á bakvið það máltæki?!?).

Þetta er samt svolítið tricky því mér leiðast sjálfri svo mikið svona blogg þar sem hvert smáatriði er tiltekið- eins og dagbók. Þarf að finna leið til að gera þetta áhugavert.

Hhmmm... hux hux.

Vissar staðreyndir þurfa að koma fram samt sem áður t.d. að nú er ég að fara í dansnám hér næsta árið og ég bý á kristilegu gistiheimili fyrir stúlkukindur með stórri kirkju innandyra, kirkjuklukkum á þakinu og garðurinn minn er kirkjugarður. Þar er pabbi hans Mozart og fjölskylda hans grafin. Mjög miðsvæðis, nálægt gamla bænum og virkinu sem trónir hér yfir öllu. (Það þarf aðeins að lýsa stemningunni).

Ég er í túristaleik þessa dagana, skólinn er ekki byrjaður ennþá. Ég fór upp í virkið, sat og horfði á fjöllin í Þýskalandi og drakk bjór. Fór á safn. Fór í dómkirkjuna. Fór í aðra kirkju. Rosalega margar kirkjur hérna, ég kann vel við þær. Fór á bar. Fór á annan bar. Borðaði Bratwurst. Drakk Spritebjór. Drakk venjulegan bjór. Átti þynnkudag ;)

Þegar ég kem inn í búðir þá segir fólk "SKOTT!", sem ég hélt að væri nafnið Scott, en svo spurði ég eina afgreiðsludömuna hvað hún væri eiginlega að segja við mig "GrüZ Got!" sem væri þá "Heilsum Guði!". Þótti það nú svolítið kómískt. En maður á að spyrja þegar maður skilur ekki- öðruvísi lærir maður ekki.

Fólk talar iðulega við mig á þýsku- ég skil slatta en segi "Ich spreche nicht so viel Deutch jetzt" og þegar ég segist vera frá Íslandi er fólk yfir sig hrifið, sérstaklega ef það hefur komið þangað eða þekkir einhvern þaðan. Fólk lýsir veðrinu heima. Rigningunni sem fellur ekki lóðrétt heldur kemur úr öllum áttum með rokinu. Ahh..... súld og rigning, maður verður að elska þær systur. Ég fékk meira að segja gefins snýtuklúta frá einni konu því ég var frá Íslandi. Það eru allir mjög almennilegir. Og hjálpsamir.

Ég hengdi upp landakort af Íslandi.

Þú þarft að vita hvaðan þú kemur til að vita hvert þú ert að fara.

Ég bið að heilsa fjöllunum, sérstaklega Esjunni, Keili og Snæfellsjökli.

K8

1 Comments:

Blogger Tómas Beck said...

Ég er ánægður með þig!"!! Ég skila kveðjunni.
Love jú
Tomas Bróðir

8:09 PM  

Post a Comment

<< Home