Saturday, December 31, 2005

Lokaorð

Alltaf.

K8

Wednesday, December 28, 2005

Viðleitni

Viðleitni skiptir miklu máli. Hvaða viðhorf við höfum til hlutanna getur skipt sköpum um hvort okkur takist tilætlanir okkar-"Hugurinn ber þig hálfa leið..."o.s.frv. Þegar kemur að áramótum strengja sumir áramótaheit. Þau eru samt sem áður flest dæmd til þess að mistakast og hefur nú þessi vitneskja verið staðfest af þjóðfélaginu með hernaðarátakinu "HÆTTUM EKKI AÐ REYKJA UM ÁRAMÓTIN!".

Ég ætla ekki að strengja áramótaheit núna á laugardaginn. Ég ætla hins vegar að breyta viðleitni minni til nokkurra hluta. Um daginn, man ekki nákvæmlega hvenær, þá bárust "geðorðin 10" inn á öll heimili á Íslandi. Allavega rataði þetta inn um lúguna hjá mér og endaði uppi á eldhúsofninum (það er sumsé ekki segull á ísskápnum). Ég gjóa stundum augunum til þessara geðorða, nú sérstaklega upp á síðkastið þegar afgangar af kræsingum eru hitaðar í örbylgjuofninum (hann er sumsé fyrir ofan ofninn). Í þessar 2 mínútur eða svo með reglubundnu millibili yfir daginn hafa þessi geðorð verið að síast smám saman inn. Ef svo leiðinlega vill til að þú, lesandi góður, hafir ekki séð þessi geðorð þá eru þau eftirfarandi:

Geðorðin 10

1) Hugsaðu jákvætt, það er léttara
2) Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
3) Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir
4) Lærðu af mistökum þínum
5) Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina
6) Flæktu líf þitt ekki að óþörfu
7) Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig
8) Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup
9) Finndu og ræktaðu hæfileika þína
10) Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

Mér finnst þetta ágæt orð og ætla að sýna viðleitni til að fara eftir þeim á nýju ári.

K8

Wednesday, December 21, 2005

Sálmur 98

Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.

V. Briem


K8

Friday, December 16, 2005

Forsjálni og fyrirhyggja

Sæl verið þið!

Jú jólin eru á næsta leyti... það er víst óumflýjanlegt. Jólin eru allavega að koma og þeir sem eru kristnir halda þessa hátíð heilaga fyrir tilstilli fæðingu frelsarans fyrir 2005 árum eða svona hér um bil. Þeir sem að ekki eru kristnir njóta þessa tíma líka... hátíð ljóss og friðar, góð stund með þeim sem maður elskar og þykir vænt um, góður matur, vakað lengi, lesið mikið o.s.frv. Semsagt eitthvað fyrir alla.

Svo má náttúrlega ekki gleyma því að þetta er einstaklega góður tími fyrir kaupmanninn, e.t.v. þó betri fyrir kaupmanninn í klasanum heldur en kaupmanninn á horninu þar sem fleiri sækja í klasann sökum kuldabolans ógurlega. Svo bitnar þetta allt saman á pyngjunni. En við skulum þó muna máltakið góða "sælla er að gefa en þiggja" þannig að hverjum er ekki sama um pyngjuna?

Mér finnst alveg einstaklega leiðinlegt að versla. Fyrir utan það að finnast það leiðinlegt þá er það bara mjög erfitt fyrir mig og verð ég hin fúllyndasta ef ég þarf að dvelja meira en ca. hálftíma innan klasans án þess að það beri árangur. Svo er eins og blóðsykurinn falli því ég hressist ekki fyrr en ég fæ næringu skömmu eftir þessa þrekraun.
Hef ég því brugðið á það ráð þessi jólin að hringja í búðirnar og spyrja hvort að varan sé til sem ég hef í hyggju að kaupa. Sé hún til, hefi ég látið taka hana frá og skýst svo eins og byssukúla inn í verslunina til að ná í hana. Kemur þetta sér afbragðs vel fyrir sjálfa mig og ættingja, þ.e. ég fer ekki í fýlu og pirrast sem bitnar þá ekki á þeim sem umgangast mig :) Hefur þetta tekist svona með endæmum vel að ég hef lokið við öll jólainnkaup.

Hmmm... hvernig var þetta nú... "Ehh.. einhver hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir".
Ég keypti litla jólagjöf handa sjálfri mér :)

K8

Monday, December 12, 2005

Skapar fegurðin hamingjuna?

Gott lag eftir Bubba en líka góð spurning. Ég sé mig knúna til að skrifa örlítinn pistil um þetta sökum nokkurra þátta t.d. komments frá Óla, viðræðna við Hrefnu klippikonu, skrifa Árna Georgssonar og svo má ekki gleyma því að Ísland er enn á ný orðið bezt í heimi- nú aftur í fegurð.

Óli sagði að ég muni sjá eftir því að fá mér ekki teina. Hrefna klippikonan mín sagði mér að þetta væri góð ákvörðun og mitt bros- skakkt/ekki skakkt- væri bara Katrín. Árni kemur svo með þann pólinn í hæðina að það vanti í raun að skilgreina keppnisgreinina sjálfa í fegurðarsamkeppnum-þ.e. í hverju er fegurðin mæld?

Ég er í sjálfu sér fygjandi lýtaaðgerðum ef að fólki líður virkilega illa með sjálft sig og telur hamingju sína beinlínis standa og falla með því hvort það fái sér stærri brjóst, þrýstnari varir, fitusog hér og þar, taki nokkra augnpoka og strekki svo kannski smá á andlitinu. Ég tel þó afar ólíklegt að hamingja fólks standi og falli með slíkum hlutum og vona innilega að ég hafi rétt fyrir mér. Maður verður kannski aldrei fullkomlega sáttur við sjálfan sig en ég tel að rót vandans liggi oft dýpra og að það þurfi nú aðeins að taka til í draslinu innan í manni áður en maður fer að leggjast undir hnífinn. Eins og gott máltak segir "Hamingjan kemur innan frá". Nú hugsa eflaust margir (hohoho- þetta er nú bara það sem ljóta fólkið segir-hohoho).

Er það samt nokkuð? Við tökum eftir því hvort fólk hefur útgeislun eða ekki- hvort það brosir eða hlær og hvort það er nokkuð sátt við sjálft sig. Í kringum svona fólk líður mér vel og þá spái ég ekki mikið hvort að manneskjan sé með skakkt eða þráðbeint bros, bólur eða slétta húð, skítugt eða hreint hár o.s.frv. Það er heildin sem skiptir máli og hvaða mann fólkið hefur að geyma. Þetta er svona fólk sem virðist allavega vera nokkuð sátt við sjálft sig og það lýsir yfirleitt upp herbergið sem það kemur inn í. Hef ég verið svo heppin að fá að þekkja fullt af slíku fólki.

Því spyr ég á ný:

Skapar fegurðin hamingjuna?

K8

Thursday, December 08, 2005

What is - is the was - of what shall be

"Ef maður nær að lifa í núinu þá er enginn annar tími til. Þá er maður laus úr viðjum fortíðar og án ótta við framtíðina. Uppskera lífsins er alltaf í núinu."

Blaðið, bls. 21.

K8

Sunday, December 04, 2005

"Tíminn er fugl sem flýgur hratt"

Það var á þessum degi, fyrir 17 árum síðan, sem norsk-íslensk stúlka kveikti á Oslóartrénu á Austurvelli...

Merkilegt hvað þessi fugl getur flogið.

K8

Skögultönn



Ef þetta kemur á daginn..... Well, þá verður bara að hafa það.

Hef tekið ákvörðun :)

K8

Saturday, December 03, 2005

"Af því bara" er ekkert svar!

Maður dagsins er Daniel Gilbert. Af hverju? Svarið er að finna á bls. 43 í Blaðinu í dag.

K8

Thursday, December 01, 2005

Carpe diem

Hef tekið eftir því að undanförnu að fólk hlakkar alltaf til framtíðarinnar í stað þess að njóta dagsins, hvað þá að njóta augnabliksins. Við gerum oft of miklar kröfur til þess að lífið eigi að vera ofurskemmtilegt og fullt af nýjungum í stað þess að njóta hversdagsleikans og alls því skemmtilega er hann hefur uppá að bjóða. Fell ég í þá gryfju stundum sjálf en er meðvitað að reyna að njóta þess að vera í núinu og vera systir Pollýönnu á köflum. Núið er jú það eina sem ég veit að er fyrir víst.

Tek daginn í dag (það sem búið er af honum)sem dæmi. Ég vaknaði kl. 10 til að undirbúa mig fyrir munnlegt próf í ensku. Hef staðið í gríðarlegri jafnréttisbaráttu varðandi námið að undanförnu og hlakkaði því mikið til að spreyta mig í enskri tungu- í gegnum síma.
Á slaginu 12 hringdi svo síminn, engum að óvörum var það kennarinn á hinum enda línunnar. Þar sem þetta var munnlegt próf í ensku þá þurfti ég að tjá mig um hin og þessi málefni og mátti ég velja milli þriggja staðhæfinga. Ég valdi þá fyrstu:
"Beauty contests are ridiculous. Do you agree or disagree?"
Þessu var auðsvarað og naut ég þess til hins ítrasta að tjá skoðun mína á þessu. Komu skrif Hulksins góða að undanförnu að mjög miklu gagni og er það ein af þessu litlu tilviljunum sem kæta mann í skammdeginu. Ekki spillti það fyrir að sjá Hulkinn sjálfan kampakátan á Þjóðarbókhlöðunni skömmu síðar.
Síðar í munnlega prófinu þurfti ég að ræða offituvandamál Íslendinga og hversu mikill heilbrigðisvandi þetta ástand er orðið. Einnig auðvelt til útskýringar.
Ég var semsagt bara mjög kát að loknu þessu munnlega prófi og sannfærðist enn fremur um að jafnréttisbarátta mín muni bera árangur þegar upp er staðið.

Glöð í bragði hélt ég á þjóðarbókhlöðuna og las þar aðeins fyrir jólapróf- Skemmtilegt ekki satt? Að ég fari bara í eitt próf? Jú mér finnst það líka :) Á heimleiðinni sá ég í baksýnisspeglinum ungan pilt bora í nefið.
Hann var að reyna að gera það laumulega en þar sem ég þjáist ekki af umhverfisblindu þá tók ég mjög vel eftir þessu. Eins konar þjóðháttarannsókn á rauðu ljósi. Svo borðaði hann horið. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og brosti.

Gerum ekki of háar kröfur til hversdagsleikans- það er heimspeki dagsins.

K8