Wednesday, April 19, 2006

Fólk

Á vegi okkar allra verður fólk. Þetta fólk er misjafnt eins og það er margt. Ég heillast af fólki yfir höfuð og finnst ótrúlega skemmtilegt að velta fyrir mér hversu mikil flóran af fólki er. Öll eigum við okkar sögu, okkar örstuttu sögu í þessari tilvist á þessari jörð. Og þær fléttast saman. Það er það sem mig langar svo að fá yfirsýn yfir. Ég vildi óska þess að vera stödd í mikilli mannþvögu og geta svifið fyrir ofan hana og þannig séð þetta risastóra tengslanet í heild sinni... geta fengið að fylgjast með því hvernig fólk hittist og ratar inn í líf hvers annars á hverjum degi. Á einfaldan máta má líkja þessu tengslaneti við Pacman tölvuleikinn... þar sem maður sér hvert hver og einn kall er að fara.

Það eru tengslanet víðar.... t.d. bara Internetið. Þar smellirðu bara á link og þá kemstu áfram og allt tengist. Blogg eru líka þannig. Ótrúlega skemmtilegt hvernig maður getur vafrað sig áfram inn á hin og þessi blogg án þess að fólk viti af því (nema einhvers konar trackbúnaður sé til staðar). Stundum kannast maður við fólkið sem er að skrifa og áttar sig á samhenginu hver viðkomandi er, þ.e. ef viðkomandi skrifar um það sem hann/hún gerir í sínu daglega lífi, birtir myndir eða tilgreinir nöfn vina sinna. Svo hef ég líka rambað inn á blogg sem mér finnst viðkomandi skrifa það skemmtilega og þenkjandi að ég myndi vilja hitta viðkomandi og ræða heimsmálin. Semsagt; maður les fólk í bókstaflegri merkingu.

Stundum hefur verið sagt að augun séu spegill sálarinnar. Vafasamt en hvur veit nema eitthvað sé til í því þar sem einhverjar rannsóknir hafa sýnt að fólk líti annað hvort upp til hægri eða vinstri þegar það lýgur. Man ekki hvort það var. Svo sér maður oft á fólki að það sé að ljúga m.a. á augunum og munnsvipnum. Maður reynir að vera svo alvarlegur og starir beint inn í augun, eins og að það sé leynilega uppskriftin að sannsögli.

En hversu vel er hægt að sjá inn í sál fólks í gegnum blogg? Er fólk almennt sjálfu sér samkvæmt í þessum miðli eða setur það upp eins konar grímu. Einhvern front sem endurspeglar engan veginn hver manneskjan er í raun og veru? Ég spyr mig stundum að þessu. Það er vissulega mun aðveldara að líta upp til hægri eða vinstri þegar setið er fyrir framan skjáinn.

K8

2 Comments:

Blogger jonas said...

ég held að allir setji upp ákveðinn front - reyni að setja þær hugsanir niður á 'blað' sem að þeir vilja að umheimurinn sjái. fólk setur sjaldnast þær hugsanir sem að skipta það mestu á bloggið hjá sér - eða vangavelturnar sem að naga það sífellt. frekar að það setji eitthvað annað til þess að komast hjá því að takast á við þessa hluti. og það er um leið kannski þannig sem við getum lesið fólk - með því að skoða hvað það skrifar ekki um...

5:54 PM  
Blogger Katrín said...

Vinur minn sagði eitt sinn við mig "Ekki gera þér mynd af því hvaða mann ég hef að geyma útfrá sjálfum mér. Horfðu frekar á fólkið sem ég umgengst"

Það er góður punktur í því að huga að hlutum öðrum en þeim sem liggja beint fyrir framan okkur.

Gerist ég nú Lafði Sher-locka-prúð Holmes og kemst að hinu sanna!

K8

9:50 AM  

Post a Comment

<< Home