Saturday, November 05, 2005

Memoirs of a Dancer

Núna er ég með opnar blöðrur undir báðum iljum og hart sigg. Mig svíður í liðþófann á hægra hné. Ég fann loksins pro-Sport teygjusokkana og hef sett utan um bæði hné. Ég fór í bað áðan og mætti halda að ég væri með dreyrasýki því það eru marblettir á ólíklegustu stöðum og mætti einnig að halda að ég hefði fætur blettatígurs. Ég er með sama lagið á heilanum stanslaust og í raun nær talnakerfi mitt einungis upp í átta. En þetta er allt í lagi, því ég elska að dansa.

Ég man eftir fyrsta skiptinu sem ég kom inn í ballettsal, þá var ég 4 ára gömul. Ég hef meira og minna verið inni í ballettsölum síðan-ef ekki í eigin persónu þá í huganum. Ég lá á miðju gólfinu og velti því fyrir mér hvaða spor ég myndi læra og reyndi að herma eftir ballerínu á meðan mamma borgaði fyrstu æfingagjöldin í Ballettskóla Eddu Scheving- Blessuð sé minning hennar (Eddu Scheving).

Leið mín lá svo í Listdansskóla Íslands eftir að hafa náð þar inntökuprófum nýorðin 11 ára gömul. Þar sem fræinu hafði verið sáð í Ballettskóla Eddu Scheving fékk það nú sólarljós og vatn á nýjum stað þar sem það náði fljótt að skjóta rótum. Smám saman dafnaði og stækkaði litla blómið ásamt lönguninni til að verða alvöru dansari, príma-ballerína, einhvern daginn.

Þar sem líkama okkar er ekki eðlislægt að snúa sitthvorum fætinum 90° út frá mjöðmum og þeim samtals því 180° (fyrsta “pósisjón”) þá fékk ég álagsmeiðsli. Það var líka erfitt að vera svona ung og æfa 6 sinnum í viku -2 ½ tíma í senn. Mig langaði mjög oft til að fá að leika mér við vinkonur mínar en samt sem áður þráði ég þetta líka og þá var það bara að gjöra svo vel að bíta á jaxlinn. Flestir vita að sjúkraþjálfun gerir lítið gagn ef maður fer beint á æfingu eftir hana.

Á þessum tímapunkti hætti ég því í klassískum ballett, 14 ára gömul. Ég var búin að eyða tíu árum í þetta. Þetta var erfið ákvörðun og á sínum tíma reyndi ég að byrja aftur í Listdansskólanum nokkrum vikum síðar því eftirsjáin var svo mikil. En allt kom fyrir ekki, líkaminn þoldi ekki álagið.

Ég gat samt ekki hætt að dansa-því þeir vita sem hafa slíka ástríðu (hvort hún er gagnvart dansi eða einhverju öðru) að við hana verður ekki skilið. Ég fór yfir í Jazzballettskóla Báru og var það í fyrstu rosalega erfitt. Gaman, en í senn erfitt. Ég hafði allt annan stíl, ég var ballettdansmær! Ég gat ekki dillað mjöðmunum á þennan hátt eða gert pirouette með hnéð vísandi inn á við. En svo að ég komi nú máltakssjúklingnum góða að þá vita flestir að “þolinmæðin þrautir allar vinnur” : ) og á endanum gat ég alveg dillað mér og gert öðruvísi pirouetta. Þetta tók bara smá tíma, æfingu og þolinmæði. Ég var þarna í nokkur ár, allavega fram á annað ár í menntaskóla. Þá fékk ég svona tilfinningu yfir mig að mig langaði til að læra annars konar stíl, eitthvað öðruvísi svo ég yfirgaf Jazzballettskóla Báru að mig minnir 17/18 ára gömul.

Eftir það tóku við alls kyns tímabil. Ég fór í salsa í Kramhúsinu, funk hjá Dansskóla Birnu Björnsdóttur í Sporthúsinu, samkvæmisdans hafði ég einhvern tímann lært hjá Sigurði Hákonarsyni svo lá leiðin aftur í Kramhúsið, nú til hennar Yesmine sem flestir kannast við og var þar í boði funk/jazz námskeið. Þarna var aftur komið eitthvað sem greip athygli mína. Þetta reyndust vera fyrirtakstímar – stemmning, sviti og púl – einnig nýjustu danssporin úr tónlistarmyndböndunum í hverjum tíma. Ekki slæmt. Ég ílengdist (sjaldséð orð) í þessu u.þ.b. 1 og ½ ár og voru alls kyns skemmtilegar uppákomur á því tímabili. Hver man ekki eftir Funk/Jazz Academy??? ;)

Allavega svo ég fari að “wrappa þessu upp” á góðri ísl-ensku, þá kom núna sl. sumar yfir mig einhvers konar vitundarvakning. Hljómar e.t.v. sjúklega en eins og stendur í góðri bók er ég eitt sinn las: “Kleppur er víða”
Ég tók sjálfa mig í naflaskoðun frá A-Ö og spurði mig spurninga líkt og “Hver er ég, hvað vil ég gera, hvert stefni ég, hvert er lífsviðhorf mitt, hvað vil ég skilja eftir mig??????”. Þessar týpísku tilvistarkreppuspurningar sem við höfum öll spurt sjálf okkur að. Ég komst ekki beinlínis að niðurstöðu, en ég komst þó að því að ævi mín eins og hún leggur sig er lituð þessari ástríðu minni á dansi. Hversu langt tilbaka sem ég lít, þá mun ég alltaf finna dansinn þar. Með þá tilfinningu að leiðarljósi tók ég ákvörðun. Ég skráði mig aftur í Jazzballettskóla Báru af því að ég elska að dansa. Svo einfalt var það. Og þar sem ég er fullkomnunarsinni í eðli mínu þá vildi ég gera þetta að alvöru en ekki áhugamáli.

Ég veit ekki hvort þetta takist hjá mér, né hvort álagsmeiðslin taki sig upp á ný. Eitt veit ég þó, þegar mun líta tilbaka; Ég reyndi.

K8

10 Comments:

Anonymous Anonymous said...

einhversstaðar stendur "hvað sem þú gerir,... dansaðu þá eins og enginn sé að horfa",... og það er einmitt það sem þú gerir,....nema hvað að ég hef horft,... og haft mikla ánægju af, því þú berð af.
Aldrei hætta að dansa,..það gerir þig að því sem þú þú ert.

takk fyrir mig.

5:27 AM  
Blogger Katrín said...

Ég man eftir þessu, og svo var þetta einu sinni í Simpson þætti þegar Bart fór í ballett....:)
Það er satt hjá þér, þetta hefur óneitanlega mótað mig....
Ég hugsa að ég muni alltaf dansa,... Alltaf.

K8

... og takk fyrir innlitið :)

12:14 PM  
Anonymous Anonymous said...

Fallegt blogg, falleg stúlka, falleg íþrótt!

Keep up the good work

Pála

12:19 AM  
Anonymous Anonymous said...

Fallegt blogg, falleg stúlka, falleg íþrótt

Keep up the good work

Pála

12:21 AM  
Blogger fló said...

Thetta var fallegur og upporvandi pistill, min elskulega. Gaf mer goda tilfinningu i hjartad.

:)

3:38 PM  
Blogger jonas said...

og hvernig þú dansaðir í kringlunni! þvílík sýning! Oroblu hljóta að hafa boðið þér samning! ussss!

6:40 PM  
Blogger Sigurrós said...

góður pistill elskan, góður pistill :)

7:12 PM  
Blogger fló said...

Upporvandi skrif, min kaera. Gaf mer innblastur og gledi i hjarta.

Olof. :)

4:05 PM  
Blogger Katrín said...

Spurning um að ræða norræna goðafræði og Vetrarhátið ´06 við tækifæri? :)

K8

9:20 PM  
Blogger Katrín said...

Þið eruð öll yndisleg :)

K8

5:46 PM  

Post a Comment

<< Home